Ófullkomna er nýja FULLKOMNA foreldrið

Sérfræðingar á sviði félags- og heilbrigðismála hafa til fjölda ára vakið athygli á þörfinni fyrir fræðslu fyrir pör á þeim tímamótum þegar foreldrahlutverkið kemur til sögunnar. Það er erfitt að verða foreldri í fyrsta sinn m.a. vegna þess að fólki er talið trú um að það sé meðfæddur hæfileiki að takast á við þetta krefjandi verkefni. Þessi skilaboð samfélagsins geta til að mynda haft áhrif á fæðingarþunglyndi. Heppilegri skilaboð væru: „Það er ekkert óeðlilegt við að þér finnist foreldrahlutverkið erfitt því þú vilt vanda þig svo mikið og sinna því svo vel.“ Það er ekki til neitt sem heitir að vera fullkomið foreldri. Ófullkomna foreldrið er hið nýja fullkomna foreldri.
Árið 1995 var sjónvarpsþátturinn „Almannarómur“ undir stjórn Stefáns Jóns Hafstein sýndur á Stöð 2. Áhorfendur voru spurðir: Þarftu á hjálp að halda í hjónabandinu? Um helmingur sagði já. Nú liggur fyrir að um 70% nýrra foreldra glíma við sambandserfiðleika með tilkomu barns. Þessir erfiðleikar geta skaðað lífsgæði foreldra og barna þeirra varanlega. Örlög einnar kynslóðar markar upphaf þeirra næstu. Bókin „Eftir skilnað - um foreldrasamstarf og kynslóðatengsl“ er forvarnarfræðsla fyrir hjón og pör sem mæla má með. Höfundar eru dr. Sigrún Júlíusdóttir og Sólveig Sigurðardóttir félagsráðgjafar. Þar segir „Vitað er úr tölfræðilegum gögnum, allt frá því að um miðja síðustu öld, að fæðing fyrsta barns í parsambandi getur verið ávísun á skilnað ef ekki hefur verið staðið nógu vel að undirbúningnum. Því hefur víða, einkum í Bandaríkjunum, verið unnið að markvissu forvarnarstarfi með verðandi foreldrum, með almennri fræðslu og í hópastarfi, og árangurinn hefur ekki látið á sér standa”. Kvöldnámskeiðið „Ertu að verða foreldri?” sem er á vegum 9 mánaða undirbýr verðandi foreldra til að takast á við foreldrahlutverkið. Til þess að það takist sem best er veitt fræðsla um hvernig efla má parasambandið samhliða foreldrahlutverkinu. Umsjón með námskeiðinu hafa Ástþóra Kristinsdóttir ljósmóðir og undirritaður.

Ein ummæli

  1. 16. janúar 2015 kl. 13.32 | Slóð

    Þetta eru ummæli.
    Til þess að eyða ummælum þarftu að skrá þig inn og skoða ummæli við færslur. Þar finnur þú aðgerðir til þess að breyta þeim eða eyða.